BORGARAFUNDUR UM HEILBRIGÐISMÁL

Á þriðjudag, 22. mars, efnir RÚV til borgarafundar um heilbrigðismál, en ljóst er að málefnið brennur á þjóðinni. RÚV býður því upp á málefnalegan umræðuvettvang þar sem leitað er svara við spurningum almennings er varða heilbrigðiskerfið og framtíð þess. Sérfræðingar og stjórnmálamenn verða til svara.

Hvernig ætti heilbrigðisþjónustan vera til framtíðar – og hvernig á að fara að því? Sérfræðingar úr heilbrigðisstétt verða í pallborði sem og forsvarsmenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi. 

Fundurinn verður í Háskólabíói og í beinni útsendingu á RÚV, RÚV.is og á Rás 2. Útsendingin hefst klukkan 19.35 en húsið verður opnað klukkan 19. Fundarstjórar eru Þóra Arnórsdóttir og Baldvin Þór Bergsson.

Sérfróðir gestir svara spurningum, þeir eru Birgir Jakobsson landlæknir, Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans, Arna Guðmundsdóttir formaður Læknafélags Reykjavíkur og Hildigunnur Svavarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Fulltrúar stjórnmálaflokkanna sitja einnig fyrir svörum, Árni Páll Árnason Samfylkingunni, Óttar Proppe, Bjartri framtíð, Ásta Guðrún Helgadóttir Pírötum, Katrín Jakobsdóttir VG, Kristján Þór Júlíusson Sjálfstæðisflokknum og Sigurður Ingi Jóhannsson frá Framsóknarflokknum.

Við óskum eftir spurningum frá almenningi en þær er hægt að senda um tölvupóst á [email protected] eða nota myllumerkið #borgarafundur á twitter og Facebook.

Deildu þessu á:

Facebook