Vísindasjóður Öldrunarfræðafélag Íslands Styrkveiting 2020

Styrkur úr Vísindasjóði Öldrunarfræðafélag Íslands er að þessu sinni veittur til Ragnheiðar Guðmundsdóttur. Heiti rannsóknarinnar er:  „Aldraðir og sjálfsvanræksla – viðhorf, reynsla og sýn hjúkrunarfræðinga.“ Ragnheiður er hjúkrunarfræðingur og er verkefnið meistaraverkefni hennar við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. Leiðbeinandi hennar er Dr. Kristín Þórarinsdóttir, dósent.

Um er að ræða mjög vandaða rannsókn, en niðurstöður hennar hafa mikið gildi fyrir aldraða, hefur mikið vísindalegt gildi og er líklegt til birtingar í vísindatímariti. Umsóknin er mjög vel gerð og Ragnheiður nýtur leiðsagnar trausts leiðbeinanda við Háskólann á Akureyri. 

Í umsókninni kemur fram að:

„Markmið rannsóknarinnar er að kanna viðhorf og reynslu hjúkrunarfræðinga, í heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri og bráðaöldrunarráðgefandi (BÖR) – hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku Landspítala, á umönnun aldraðra sem bera merki sjálfsvanrækslu og sýn hjúkrunarfræðinganna á þróun þjónustu fyrir þennan hóp aldraðra. Gögnum verður safnað með rýnihópaviðtölum  en það er rannsóknaraðferð sem er notuð til að öðlast betri skilning á viðhorfum og reynslu fólks gagnvart ákveðnu viðfangsefni. Þetta er aðferð þar sem einstaklingar með ákveðin sameiginleg einkenni, sem henta tilgangi rannsóknar, eru valdir í rýnihóp til að öðlast betri skilning á viðhorfum og reynslu þessa tiltekna hóps á viðfangsefni rannsóknar. Þátttakendur verða hjúkrunarfræðingar  í heimahjúkrun í Reykjavík og Akureyri og BÖR – hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Landspítala. Gert er ráð fyrir 3-4 rýnihópaviðtölum en um 6-8 hjúkrunarfræðingar verða í hverjum hóp. Gögnin verða greind með eigindlegri aðleiðandi innihaldsgreiningu þar sem áherslan er á að greina innihald gagnanna, efni þeirra og samhengi með áherslu á breytileika þeirra. Leitað er eftir því sem augljóst er í gögnunum en einnig því sem mögulegt er að túlka úr duldum gögnum.

Ljóst er að öldruðum með einkenni sjálfvanrækslu fer fjölgandi hér á landi og að viðhorf og færni starfsfólks skiptir sköpum í þjónustu við þennan hóp. Engin rannsókn  hefur verið gerð meðal hjúkrunarfræðinga á Íslandi um sjálfvanrækslu meðal aldraða og fáar erlendar rannsóknir liggja fyrir um efnið. Vonast er til að  með rannsókninni þróist þekking sem hægt sé að nýta til að bæta þjónustu við aldraða með einkenni sjálfsvanrækslu. Rannsóknin gæti því lagt grunn að fleiri rannsóknum á þessu sviði. „

Álftanesi 1. apríl 2020

Fyrir hönd Vísindasjóðs Öldrunarfræðafélag Íslands

Ingibjörg Hjaltadóttir

Deildu þessu á:

Facebook