ÖLD þakkar Parkinsonsamtökunum

Aðalfundur Öldrunarfræðafélags Íslands 2022 fór fram miðvikudaginn 20. apríl sl. eins og áður hefur verið greint frá. Öldrunarfræðafélagið var svo lánsamt að fá aðstöðu fyrir fundinn í Takti, nýrri þjónustumiðstöð Parkinsonsamtakanna í Lífsgæðasetri St. Jó í Hafnarfirði. Erna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Parkinsonsamtakanna, sá jafnframt um fundarstjórn á aðalfundi. Þátttakendur fundarins fengu kynningu á auknum umsvifum í starfsemi samtakanna og skoðunarferð um glæsilega nýja aðstöðu þeirra í Hafnarfirði.

t.v. Sirrý Sif Sigurlaugardóttir formaður stjórnar ÖLD ásamt Ernu Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra Parkinsonsamtakanna á aðalfundi ÖLD 20.04.22.

Lífsgæðasetur St. Jó er samfélag sem býður upp á forvarnir, heilsuvernd, snemmtæka íhlutun, fræðslu og skapandi setur. Allir rekstraraðilar eiga það sameiginlegt að auka lífsgæði fólks með einum eða öðrum hætti. Lífsgæðasetur St. Jó er sjálfbær eining rekin af Hafnarfjarðarbæ. 

Parkinsonsamtökin á Íslandi voru stofnuð 3. desember 1983 og er markmið þeirra að:

  • aðstoða sjúklinga og aðstandendur við að leysa úr þeim vanda og erfiðleikum sem sjúkdómnum fylgja.
  • dreifa upplýsingum, veita fræðslu og styðja við rannsóknir vegna parkinsonveiki.
  • vera vettvangur umræðu um sameiginleg vandamál félagsmanna.
  • halda reglulega félagsfundi til skemmtunar og fræðslu.
  • gefa út rit félagsins og halda úti vefsíðu til að miðla upplýsingum og fræðslu.

Taktur er þjónustumiðstöð Parkinsonsamtakanna. Þar verður boðið upp á þjónustu við fólk með parkinson og skylda sjúkdóma og aðstandendur þeirra. Dagskrána má finna á hér en það er unnið að því að bæta við dagskrárliðum í hverri viku. Við hvetjum áhugasama eindregið til að kynna sér starfsemina.

Stjórn ÖLD þakkar Parkinsonsamtökunum kærlega fyrir höfðinglegar móttökur og Ernu fyrir góða fundarstjórn. Um leið óskum við Parkinsonsamtökunum, stjórn, starfsfólki, félagsmönnum og öllum Íslendingum til hamingju með Takt.

Deildu þessu á:

Facebook