TAKK fyrir komuna!

Öldrunarfræðafélag Íslands þakkar öllum þeim sem komu og héldu upp á hálfrar aldar afmæli félagsins með okkur þann 22. febrúar síðastliðinn í safnaðarheimili Neskirkju. Stjórnin er einlæglega ánægð með daginn og þátttöku fyrirlesara og gesta.

Dagskráin hófst stundvíslega kl.13:00 með setningarorðum Guðrúnar Díu Hjaltested sjúkraþjálfara, stjórnarmeðlimi félagsins og fundarstjóra dagsins. Sirrý Sif Sigurlaugardóttir félagsráðgjafi og formaður stjórnar hélt fyrsta erindið sem innihélt stutta yfirferð á 50 ára starfsemi félagsins. Formaður stjórnar vísindasjóðs, Guðrún Björk Reykdal félagsráðgjafi, forfallaðist því miður svo Sirrý fór stuttlega yfir starfsemi og sögu vísindasjóðs líka.

Svo ánægjulega vildi til að styrkþegi vísindasjóðs í ár hafði tök á að koma á málþingið og veita styrk upp á 300.000 kr.- viðtöku. Á þessu afmælisári var það Inga Valgerður Kristinsdóttir sérfræðingur í hjúkrun við Heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og doktorsnemi við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands sem hlaut styrkinn. Rannsóknarverkefni hennar ber titilinn Þættir í fari skjólstæðinga heimahjúkrunuar sem spá fyrir um flutning á hjúkrunarheimili. Rannsókn byggð á interRAI-HomeCare gögnum. Við óskum Ingu Valgerði til hamingju og hlökkum til að fylgjast með framvindu rannsóknarinnar.

Því næst tóku tveir fyrrum styrkþegar til máls og sögðu frá framvindu sinna rannsóknarverkefna. Stefanía Sif Traustadóttir, meistaranemi við Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri og forstöðumaður stuðnings- og stoðþjónustu hjá Skagafirði flutti erindið „Erfið barátta sem snertir mann á allan máta og mikil ábyrgð að bera”. Reynsla og þarfir óformlegra umönnunaraðila einstaklinga með heilabilun sem búa heima. Stefanía Sif hlaut styrk úr vísindasjóði árið 2022.

Vaka Valsdóttir doktor í sálfræði og styrkþegi vísindasjóðs árið 2018 sagði frá doktorsrannsókn sinni Cognitive Performance, Cognitive Change, Brain Health, and Dementia: Associations with RiskFactors for Cognitive Aging. Vaka lauk doktorsprófi í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2023. Hún hefur birt þrjár ritrýndar greinar um niðurstöður sínar. Áhugasamir geta lesið nánar um verkefni Vöku með því að smella hér.

Eftir hlé og afmæliskaffi var pallborð undir yfirskriftinni Samvinna fags og fræða – Þverfaglegar umræður um hagnýtingu rannsókna. Margrét Guðnadóttir, sérfræðingur í heimahjúkrun og ritari stjórnar ÖLD stýrði umræðunum af stakri snilld. Góðar umræður mynduðust bæði meðal þátttakenda í pallborði og áheyrenda í sal. Í pallborðinu sátu: Anna Björg Jónsdóttir, yfirlæknir öldrunarlækninga á LSH, Berglind Soffía Blöndal, næringarfræðingur PhD og varaformaður stjórnar ÖLD, Ingibjörg Hjaltadóttir, hjúkrunarfræðingur PhD og prófessor við hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ, Sigrún Ingvarsdóttir, félagsráðgjafi MA á Landakoti LSH, Steinunn Arnars Ólafsdóttir, sjúkraþjálfari PhD og lektor við námsbraut í sjúkraþjálfun við HÍ og Svanborg Guðmundsdóttir, yfiriðjuþjálfi á Landakoti LSH.

f.v. Steinunn, Anna Björg, Svanborg, Sigrún, Ingibjörg og Berglind.

Kærar þakkir fyrir þátttökuna öll og góðar kveðjur í tilefni áfangans. Stjórnin þakkar fyrir sig og óskar félaginu alls hins besta næstu 50 árin, jafnvel lengur.

f.v. Guðrún Día, Svanborg, Sirrý Sif, Margrét og Berglind.

Deildu þessu á:

Facebook