SELMA – sérhæft teymi innan heimahjúkrunar í Reykjavík

SELMA er þverfaglegt teymi hjúkrunarfræðinga af velferðarsviði Reykjavíkurborgar og lækna af Læknavaktinni. Teymið sinnir vitjunum og ráðgjöf á dagvinnutíma og er ætlað að vera styrking og ráðgefandi bakland fyrir þjónustu heimahjúkrunar. Markmið þessarar nýju þjónustu er að auka heilbrigðisþjónustu til skjólstæðinga heimahjúkrunar sem ekki komast til mats og meðferðar á heilsugæslu eða göngudeild og draga úr komum á bráðamóttöku Landspítala og hugsanlegri þörf á innlögn á spítalann Nafnið SELMA er ómþýtt og hlýlegt en hefur einnig skírskotun í og er skammstöfun fyrir mikilvæg einkunnarorð sem þjónustan vill standa undir; Samþætt samvinna, Endurmat, Læknisþjónusta, Meðferð og Aðhlynning.

SELMA hóf starfsemi þann 16. nóvember 2020. Aðstaða teymisins er á Læknavaktinni í Austurveri. Þjónustan er opin alla virka daga milli kl. 8-20. Hjúkrunarfræðingur SELMU er með opinn vaktsíma milli kl. 8-20 og sinnir símsvörun, ráðgjöf og skipulagningu á vitjunum. Teymið sinnir vitjunum frá kl. 13- 17 alla virka daga með bíl frá Læknavaktinni. Tveir hjúkrunarfræðingar og einn læknir er á vakt SELMU hverju sinni.

Málin berast SELMU frá starfsfólki heimahjúkrunar en einnig frá heimilislæknum einstaklinga með versnandi heilsufar eða ef þjónustan er strand í sinni nálgun. SELMA tekur ekki yfir málin en hún stígur inn, setur upp meðferðir og fylgir þeim eftir eins og þörf er á í samvinnu við heimahjúkrun og heilsugæslur. En þetta felur í sér að starfsfólk heimahjúkrunar þarf að sinna flóknari og umfangsmeiri aðstoð sem krefst aukinnar færni, þekkingar og mannafla. Heilsugæslan þarf jafnframt að vera með á nótunum og vera tilbúin að taka við eftirliti. Þannig eru upplýsingagjöf og samskipti lykilþáttur í þjónustu SELMU.

Fyrstu 18 mánuðina kom SELMA að 400 málum. Langflest (75%) var hægt að afgreiða alfarið í heimahúsi en sumir skjólstæðingar eru það alvarlega veikir að þeir þurfa á sérhæfðri spítalanálgun að halda og alls ekki hugmyndin að halda fólki frá nauðsynlegri spítalameðferð. Fyrir SELMU-teymið var því mikilvægt að sjá að þeir sem fluttir voru á bráðamóttöku þurftu langflestir á innlögn að halda (85%). Af því er metið að rétti hópurinn sé fluttur á bráðamóttöku.

Það er ekki svo stór hópur sem þarf á sértæku úrræði eins og SELMU að halda (um 10% skjólstæðinga heimahjúkrunar) en tilfellin taka mikið rými og orku innan þjónustunnar. Sérstaklega þungu og seigfljótandi málin sem litast af alvarlegum geðsjúkdómum, fíkn og jafnvel ofbeldi. Af þeim sökum var endurlífgað þverfaglegt Lausnateymi velferðarsviðs sem kallar að borðinu þá meðferðaraðila, þvert á faggreinar og stofnanir, sem þarf til að stilla saman strengi í viðkvæmustu málum okkar og vinna að sameiginlegri lausnamiðaðri nálgun. Sú nálgun er mikilvægur hlekkur í þeirri vinnu að brjóta niður múra sem hlaðist hafa upp á milli allra okkar heilbrigiðs- og félagsþjónustu kerfa.

Samvinna er lykillinn að betri framtíð.

Margrét Guðnadóttir

Sérfræðingur í heimahjúkrun og verkefnastjóri SELMU

Deildu þessu á:

Facebook