Frágangur greina

L E I Ð B E I N I N G A R

Öldrun: tímarit um öldrunarmál er tímarit Öldrunarfræðafélags Íslands og kom fyrst út árið 1983. Blaðið kemur út einu sinni á ári, þ.e. að hausti. Það birtir greinar faglegs eðlis á sviði öldrunarfræða og er markhópurinn fyrst og fremst fagfólk og nemar á því sviði, en mikið af efni blaðsins gagnast einnig almenningi.

Frágangur handrits:

Handrit skal senda á tölvutæku formi (Word) til ritnefndar blaðsins á netfangið This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Letur: Times New Roman
Leturstærð: 12
Línubil: Tvöfalt

Séu höfundar fleiri en einn, skal einn þeirra ábyrgur fyrir samskiptum við ritstjóra.
Á forsíðu handrits skal koma fram nafn/nöfn höfunda, starf, vinnustaður, heimilisfang, símanúmer og netfang (nafn, starfstitill og vinnustaður kemur fram í blaðinu). Einnig þurfa að fylgja með merktar myndir af höfundum sem munu birtast í blaðinu og eiga þær að vera í a.m.k. 300 punkta upplausn og fylgja í sér viðhengi með greininni á JPEG formi.

Á forsíðu skal einnig koma fram titill greinar, stuttur, skýr og lýsandi. Stuttur útdráttur úr greininni skal vera á bls. 2 og ekki vera lengri en 150 orð. Einnig þarf þar að koma 2 til 5 lýsandi lykilorð úr greininni til að einfalda tölvuleit.
Lengd tímaritsgreina má vera allt að 5.000 orð.

Greinin skal skrifuð á vel skiljanlegu máli og hafa ber í huga að nemar eru vaxandi lesendahópur blaðsins. Leitast skal við að nota íslensk orð yfir fagheiti en setja ensk/latnesk heiti í sviga, ef þurfa þykir. Taka skal fram, ef greinin hefur áður birst í öðru tímariti og þá hvar og hvenær og hvort hún hefur verið endurskoðuð. Sömuleiðis ef grein er byggð á erindi, en þá skal aðlaga hana að ritmáli.

Vísanir í heimildir og gerð heimildalista eru samkvæmt reglum sem settar eru fram í Publication Manual of the American Psychological Association eða Gagnfræðakver handa háskólanemum, eftir Friðrik H. Jónsson og Sigurð J. Grétarsson, Háskólaútgáfan, 2002. Þessi rit eru til á bókasöfnum, hjá bóksölum og ritnefnd blaðsins.